Um Hildi
Hildur Blöndal er EQ-þerapisti og ráðgjafi með reynslu af kennslu og rannsóknum á sviði menntavísinda og fjölmenningarfræða á háskólastigi. Hún er menntaður EQ-þerapisti frá Osló í Noregi. Í meðferðarvinnu EQ-þerapista er unnið með hæfileikann til að skilja, tjá og stjórna eigin tilfinningum og að bregðast tilfinningum annarra. Hildur stofnaði Tove þerapíu og ráðgjöf sem býður upp á meðferð og ráðgjöf sem byggist á kenningum um tilfinningagreind, persónulegan þroska og þvermenningarlega færni. Hún veitir einstaklingum, smærri hópum og fjölskyldum stuðning við að takast á við tilfinningalegar áskoranir, streitu, samskiptavanda og breytingar. Hildur er með B.Ed-gráðu í uppeldisfræði og meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með sérhæfingu í fjölmenningarfræðum. Hún starfaði um árabil við rannsóknir, verkefnastjórn og sem kennari við Háskóla Íslands. Hildur hefur brennandi áhuga á að skapa kærleiksríkara samfélag þar sem við mætum samferðafólki okkar með opnum huga, virðingu og áhuga. Með reynslu sinni tengir hún saman heima menntunar, mannlegra tengsla og tilfinningalegrar umönnunar. Hildur hefur tekið þátt í fjölda rannsókna á sviði menntunar- og fjölmenningarfræða. Meðal viðfangsefna hennar hafa verið valdefling kvenna, inngilding, reynsla nemenda af erlendum uppruna af háskólanámi hér á landi, fjöltyngi leikskólabarna og áhrif millilandafluttninga á hnattræna vitund og færni í mannlegum samskiptum. Einnig hefur Hildur sótt sér víðtæka þekkingu á tengslum mataræðis og næringar á andlega og líkamlega heilsu og er með diploma á því sviði frá Harvard Medical School. Undanfarin þrjú ár hefur hún verið ráðgjafi á námskeiðinu Destinasjon Glede í Noregi sem fjallar um vellíðan og gleði, en þátttakendur eru um þúsund einstaklinga á hverju ári. Hildur hefur búið og starfað í fimm löndum en er nú búsett á Íslandi. Hún er gift Hermanni Ingólfssyni og eiga þau tvo uppkomna syni.





